Anna Gréta, Marína Ósk, Rebekka Blöndal og Silva Þórðardóttir

Um viðburðinn

Jazzhátíð Reykjavíkur kynnir með stolti nýja kynslóð íslenskra jazzsöngkvenna sem koma nú saman í fyrsta skipti sem hópur og efna til tónleika. Þær Anna Gréta Sigurðardóttir, Marína Ósk Þórólfsdóttir, Rebekka Blöndal og Silva Þórðardóttir hafa allar vakið mikla athygli síðustu misseri fyrir tónlist sína og stigið ákveðið til jarðar á íslenskri og erlendri grundu, hver með sinn einstaka stíl.

Allar sendu þær frá sér plötur undir eigin nöfnum á árunum 2021-2023 sem allar fengu frábærar undirtektir og topp dóma. Þær fóru mikinn á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2022 og 2023 og röðuðu inn bæði verðlaunum og tilefningum. Þær hafa nú sett saman efnisskrá þar sem þær munu flytja lög hvorrar annarrar, nýjar og áður ófluttar útsetningar sem og lög sem eru þeim hjartakær.

Með þeim á sviðinu verða þeir Birgir Steinn Theódórsson á kontrabassa og Kristofer Rodriguez Svönuson trymbill.

 

Um flytjendur:

Píanóleikarinn, tónskáldið og söngkonan Anna Gréta Sigurðardóttir hefur í dag skipað sér í röð fremstu jazztónlistarmanna á Norðurlöndunum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún unnið til fjölmargra verðlauna, m.a. tvennra frá Íslensku tónlistarverðlaununum 2022 fyrir plötuna „Nightjar in the Northern Sky“ (plata ársins og tónskáld ársins í jazzflokki), Monica Zetterlund verðlaunin í Svíþjóð 2019, verðlaun helsta jazzklúbbs Svíþjóðar, Fasching, árið 2018, Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2015 og nú síðast Ystad Jazz Piano Award (2022) fyrir píanóleik sinn. Fyrsta sólóplata hennar „Nightjar in the Northern Sky“ hefur hlotið frábæra dóma í alþjóðlegu jazzpressunni og Anna Gréta hefur fylgt henni eftir með tónleikaferðalagi í Þýskalandi, Svíþjóð, Íslandi, Bandaríkjunum og Ítalíu við góðar viðtökur. Platan var gefin út hjá hinnu virtu jazzútgáfu ACT sem skrifar einungis samning við 1-2 nýja listamenn á ári. Anna Gréta býr í Svíþjóð þar sem hún starfar sem tónlistarkona.

Marína Ósk Þórólfsdóttir, söngkona, laga- og textahöfundur, gaf út aðra sólóplötu sína “One Evening in July” haustið 2022 hjá sænska útgáfufyrirtækinu TengTones. Platan hefur hlotið frábæra hefur dóma og verið streymt meira en 1.000.000 sinnum á streymisveitum. Fyrir verk af þeirri plötu hlaut Marína Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir Tónverk ársins, en alls hlaut Marína fjórar tilefningar það árið en Marína hefur verið tilnefnd alls níu sinnum fyrir ýmis verkefni frá árinu 2018, þar af tvisvar fyrir fyrstu sólóplötu sína, “Athvarf”. Hún er fastagestur á jazzklúbbum og tónleikaseríum landsins og hefur komið víða við, bæði erlendis og innanlands. Í byrjun árs 2023 kom hún fram með Stórsveit Reykjavíkur í Eldborg fyrir fullum sal. Hún býr nú í Reykjavík og vinnur að nýrri tónlist og kemur fram sem söngkona.

Rebekka Blöndal er söngkona, laga og textahöfundur. Hún gaf út sína fyrstu sólóplötu haustið 2022 hjá Smekkleysu og ber hún heitið “Ljóð”. Rebekka hefur fengið góðar viðtökur á plötunni og hefur hún bæði fengið mikla spilun í útvarpi, sem og verið plata vikunnar á Rás 2. Tónlist Rebekku hefur einnig fengið góðar viðtökur á streymsiveitum. Rebekka vann Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir Söng ársins í jazzflokki og var einnig tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem flytjandi ársins 2022 í flokki jazz og blús, en hún hefur verið iðin við að koma fram og tekið þátt í fjölmörgum verkefnum ásamt því að skipuleggja sjálf ýmsa viðburði. Rebekka kom einnig fram með Stórsveit Reykjavíkur í Eldborg í byrjun árs 2023 á hinum árvissu Gullaldartónleikum. Nú vinnur hún að nýrri tónlist og viðburðum og stundar nám við Listaháskóla Íslands.

Silva Þórðardóttir söngkona er búsett í Reykjavík og gaf út sína fyrstu plötu, Skylark, árið 2019. Útgáfutónleikar voru haldnir í Tjarnarbíó sem liður í dagskrá Jazzhátíðar Reykjavíkur. Í maí 2022 kom More Than You Know út á vegum Reykjavík Record Shop og hlaut sú plata tvær tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2023. Steingrímur Teague syngur með og spilar á filtdempað píanó og wurlitzer. Útgáfutónleikar voru haldnir í Mengi með Daníel Böðvarssyni gítarleikara. Með honum hafa lög af plötunni verið flutt á Múlanum 2022 og sömuleiðis Jazzhátíð Reykjavíkur. Silva skrifaði undir dreifingasamning hjá Sony Music Denmark fyrir sína fyrstu og aðra plötu og hefur fengið mikla hlustun á Spotify í kjölfarið. Eins og stendur vinnur hún að sinni næstu plötu.

Sjá alla viðburði