Stórsveit Reykjavíkur ásamt Kathrine Windfeld (IS/DK)

Um viðburðinn

Jazzhátíð Reykjavíkur kynnir með stolti tónleika Stórsveitar Reykjavíkur og Kathrine Windfeld.

Hér er um að ræða afar spennandi samstarf þar sem Kathrine Windfeld, ein skærasta stjarnan í hópi ungra stórsveitartónskálda jazzheimsins, stjórnar eigin verkum með okkar frábæru stórsveit.

Stórsveit Reykjavíkur þarf vart að kynna fyrir tónlistarunnendum á Íslandi. Sveitin hefur starfað í rúmlega 30 ár og skipað mjög stóran sess í íslensku jazzlífi. Hún hefur í gegnum tíðina fengið afbragðs dóma gagnrýnenda fyrir leik sinn. Stórsveitin hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin 2005 sem jazzflytjandi ársins, 2011 fyrir jazzplötu ársins og 2023 sem jazzflytjandi ársins 2022.

Á þriggja áratuga ferli hefur Stórsveit Reykjavíkur haldið vel á þriðja hundrað tónleika og gefið út 10 geisladiska. Fjölmargir gestastjórnendur hafa starfað með sveitinni í gegnum árin, bæði erlendir og innlendir. Sveitin hefur lagt sig eftir fjölbreyttu verkefnavali; frumflutt mikið af nýrri íslenskri tónlist, leikið sögulega mikilvæga stórsveitatónlist, leikið fyrir börn og átt samstarf við fjölmarga aðilia af sviði íslenskrar popptónlistar. Sveitin hefur margsinnis hlotið íslensku tónlistarverðlaunin.

 

Kathrine Windfeld lék á Jazzhátíð Reykjavíkur fyrir tveimur árum, þá með sextett sínum. Þar fengu áhorfendur að heyra tónsmíðar hennar og útsetningar í smærri hljómsveit og var þeim tónleikum afar vel tekið. Nú er komið að því að fá að heyra verk þessarar rísandi stjörnu í hinum evrópska jazzheimi í stærra samhengi.

Breska blaðið The Guardian lýsir tónsmíðum Kathrine Windfeld sem sjaldgæfri blöndu af lágstemningu og styrk og talar um marglitað samsuð af fáguðum hljómaköflum, drífandi grúvi og ljóðrænum ballöðum sem fljóta inni í kraftmiklum útsetningum.

Kathrine Windfeld hefur á stuttum tíma skapað sér nafn langt út fyrir sínar heimaslóðir í Danmörku og Skandinavíu, þökk sé þremur plötum stórsveitar hennar. AIRCRAFT (2015), LATENCY (2017) og sú nýjasta, ORCA (2020) eru allar margverðlaunaðar perlur sem hafa fengið frábæra dóma og mikið lof í alþjóðlegum ritum eins og Downbeat (USA), Le Monde (FR), Jazzthing (DE) og The Guardian (UK). Nýjasta platan er svo DETERMINATION (2021) en á henni samdi hún og útsetti tónlist fyrir hið fræga Bohuslän Big Band frá Svíþjóð. Á meðal annarra stórsveita sem Kathrine Windfeld hefur unnið með má nefna Danish Radio Big Band (DK) og Frankfurt Radio Big Band (DE).

“Kathrine Windfeld is a rising star on the European jazz scene, not least for her bold writing for her adventurous big band”
Jazzwise Magazine (UK)

„The music on Latency could pass for a top-notch American Big Band“
Downbeat (US)

“Kathrine Windfeld’s second album further establishes the Dane in the vanguard of new arranger-composers and bandleaders.”
All About Jazz (US)

„Ms. Windfeld is bound to have an important future.“
Doug Ramsey, Arts Journal (US)

 

Sjá alla viðburði