Sigurður Flosason

Sigurður Flosason hefur verið einn af virkustu jazztónlistarmönnum þjóðarinnar um langt árabil. Hann hefur gefið út þrjátíu plötur, þar af fimm í Danmörku, tvær í Svíþjóð og eina í Þýskalandi. Á þeim er fjölbreytt úrval tónlistar; frumsamin tónlist, jazzstandardar, þjóðleg tónlist, trúarleg tónlist, tilraunatónlist og blús, svo eitthvað sé nefnt.

Sigurður hefur margsinnis hlotið íslensku tónlistarverðlaunin. Hann hefur tvisvar verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs og einu sinni til dönsku tónlistarverlaunanna. Hann hefur leikið mikið erlendis, bæði í eigin verkefnum en einkum í samstarfsverefnum með erlendum listamönnum.

Sigurður hefur verið framarlega í þróun rytmískrar tónlistarkennslu hér á landi og gengt leiðandi störfum við Tónlistarskóla FÍH, Menntaskóla í tónlist og Listaháskóla Íslands.