Jóel Pálsson

Jóel Pálsson hefur verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi á undanförnum árum og tekið þátt í fjölmörgum verkefnum á ólíkum sviðum tónlistar. Hann hefur leikið á fjölda hljómplatna og komið fram í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada og Kína á tónleikum og tónlistarhátíðum. Jóel hefur áður gefið út plöturnar Prím, Klif, Septett, Varp, Horn, Innri og Dagar koma með frumsaminni tónlist auk platna sem hann hefur unnið í samstarfi við aðra; Stikur (m.Sigurði Flosasyni) og Skuggsjá (m.Eyþóri Gunnarssyni).

Jóel er meðlimur í Stórsveit Reykjavíkur og hljómsveitinni Annes.

Jóel hefur hlotið íslensku tónlistarverðlaunin sex sinnum fyrir plötur sínar og verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs tvisvar, árin 2011 og 2016. Auk tónlistarstarfa stofnaði Jóel hönnunarfyrirtækið Farmers Market – Iceland ásamt eiginkonu sinni Bergþóru Guðnadóttur 2005 og sinnir rekstri þess meðfram tónlistarstörfum sínum.