SÓLVERK – Tumi Árnason (IS)

Um viðburðinn

SÓLVERK – Tumi Árnason (IS)
Harpa, Norðurljós
Laugardagurinn 31. ágúst 
19:00

Tónskáldið og saxófónleikarinn Tumi Árnason flytur ásamt fríðu föruneyti tónverkið SÓLVERK, fyrir 15 flytjenda spunasveit.

Sólin er úr gasi og hefur því ekkert eiginlegt, fast yfirborð. Hiti og þrýstingur aukast eftir því sem nær dregur miðju sólar og því eru inniviðirnir alls ekki einsleitir.

… Við sólarupprás heilsaði fólk Sólarguðnum með fingurkossum. Æðstuprestarnir fórnuðu llamadýri, annað hvort kolsvörtu eða alhvítu, með því að skera hold þeirra með gullhníf og toga út hjartað, lungun og önnur innyfli, þar sem þeir töldu sig geta spáð fyrir um framtíðina með þeim. Eftir fórnina buðu prestarnir upp á heilagt brauð úr maíshveiti og blóði llamadýrs; ekki ósvipuð athöfn og þegar Kristnir menn gæða sér á líkama Krists og blóði hans.

… Sólskoðun getur verið einstaklega ánægjuleg tilbreyting við stjörnuskoðun að nóttu til. Fyrir það fyrsta er sólskoðun stunduð að degi til þegar oftast er nokkuð hlýtt í veðri. Þar að auki er sólin mjög tilkomumikil og getur tekið sjáanlegum breytingum á nokkrum mínútum og klukkustundum. Aftur á móti er mjög mikilvægt að fara með gát og tryggja öryggi sitt og annarra ef skoða á sólina. Sólskoðun krefst mikillar árverkni enda getur augnablikskæruleysi valdið óbætanlegum augnskaða.

Varúð! Horfið aldrei upp í sólina án viðeigandi hlífðarbúnaðar. Slíkt getur valdið óbætanlegum augnskaða!

– Af grein Stjörnufræðivefsins um sólina.

Flytjendur:

Björg Brjánsdóttir: þverflauta, piccolo flauta og sópran blokkflauta
John McCowen: kontrabassaklarinett, sópran og sópranínó blokkflautur
Sölvi Kolbeinsson: alt saxófónn og klarinett (Bb)
Tumi Árnason: tenór saxófónn
Björgvin Ragnar Hjálmarsson: barítón saxófónn og klarinett (Bb)
Eiríkur Orri Ólafsson og Tumi Torfason: trompet (Bb)
Ingi Garðar Erlendsson: básúna
Magnús Trygvason Eliassen og Matthías Hemstock: trommusett
Róberta Andersen og Hilmar Jensson: rafgítar
Ingibjörg Elsa Turchi: rafbassi
Hjalti Nordal Gunnarsson: fiðla
Birgir Steinn Theodorsson: kontrabassi

— 

Tumi Árnason er tónskáld og saxófónleikari. Hann nam tónsmíðar við Listaháskóla Íslands. Hann hefur undir eigin nafni gefið út plötuna Hlýnun, með kvartett sínum skipuðum Magnúsi Jóhanni, Skúla Sverrissyni og Magnúsi Trygvasyni Eliassen, en hún var valin tónsmíð ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2022. Hann hefur einnig gefið út tvær plötur af dúettum með Magnúsi Trygvasyni Eliassen, nú síðast Gleypir tígur gleypir ljón árið 2023. Þess utan hefur hann leikið inn á aragrúa hljómplatna sem flytjandi með tónlistarfólki úr ýmsum áttum. Tumi hefur komið að kvikmynda- og leikhústónlist bæði sem flytjandi og tónskáld, og samdi síðast tónlist fyrir leikverkið Ást Fedru eftir Söruh Kane sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu haustið 2023.