Anna Gréta Sigurðardóttir

Anna Gréta Sigurðardóttir hefur verið búsett í Svíþjóð síðan 2014 og hefur, þrátt fyrir ungan aldur, orðið einn af eftirsóttustu jazzpíanistunum þar í landi. Hún hefur á síðustu árum raðað að sér verðlaunum og tilnefningum. Árið 2019 hlaut hún hin virtu Monica Zetterlund verðlaun, en þau hlýtur einn ungur og efnilegur jazztónlistarmaður í Svíþjóð á ári. Þar að auki var hún tilnefnd til verðlaunanna Jazzkatten af sænska ríkisútvarpinu, og tilnefnd í tveimur flokkum til íslensku tónlistarverðlaunanna 2019. Anna Gréta var valin bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaunum árið 2015 og hlaut viðurkenningu frá góðvinafélagi stærsta jazzklúbbs Svíþjóðar, Fasching í Stokkhólmi árið 2018 en einnig þau verðlaun hlýtur einungis einn ungur tónlistarmaður í Svíþjóð á ári.

Anna Gréta hefur verið virk sem tónskáld og var meðal annars valin til þess að semja verk fyrir stjörnupíanóleikarann Bobo Stenson, einn þekktasta jazztónlistarmann Svía, og Norrbotten big band haustið 2019. Hún hefur unnið bæði sem „sideman“ í hljómsveitum annarra og komið fram undir eigin nafni. Meðal þeirra sem hún hefur unnið með eru Peter Asplund, Magnus Lindgren, Edda Magnason, Håkan Broström, Norrbotten Big Band, Max Schultz og Joakim Milder.