Erfi/Rememberance 2014

Við eigum margar góðar minningar um góða drengi sem ekki eru lengur á meðal okkar.

Á þessu ári misstum við Friðrik Theodórssón, sem stjórnaði Jazzhátíð Reykjavíkur frá 1999-2005 og sat auk þess í stjórn hátíðarinnar árum saman. Þar fyrir utan var Friðrik góður básúnuleikari og söngvari.

Rúnar Georgsson lést einnig á árinu, en saxófónleikur hans var alltaf þrunginn djúpri tilfinningu náttúrubarnsins í tónlistinni. Rúnar var jazzleikurum þessa lands mikilvæg fyrirmynd.

2014 hefði Sveinn Ólafsson orðið 100 ára, en Sveins er jafnan getið sem fyrtsta alvöru sólistans í Íslandsjazzinum. Hann var auk þess víóluleikari og starfaði sem slíkur alla sína starfsævi.

Ólafur Þórðarson var upphafsmaður Jazzhátíðar Reykjavíkur, en hann stóð fyrir Norrænum útvarpsjazzdögum í Reykjavík 1990 og allar götur síðan hefur jazzhátíð verið árlegur viðburður í borginni. Óli var auk þess liðtækur svínggítarleikari og söngvari.

Föstudagskvöldið 15. ágúst kemur saman á Jazzhátíð Reykjavíkur hópur listamanna undir vökulu auga Davíðs Þórs Jónssonar og telur í nokkur lög sem við teljum að þessir heiðursmenn hefðu haft gaman af að heyra og/eða spila með í.

Við eigum þeim mikið að þakka, ekki síst öll skemmtilegheitin sem fylgdi þeim öllum. Því verður fagnað í sveiflandi algleymi.

Friðrik Theodórsson
Rúnar Georgsson
Sveinn Ólafsson
Ólafur Þórðarson