In memoriam


Friðrik Theodórsson

7. febrúar 1937 – 28. mars 2014

Í dag ( 11. apríl ) fór fram útför Friðriks Theodórssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Jazzhátíðar Reykjavíkur.

Kveðja frá Jazzhátíð Reykjavíkur:

Jazzháhugafólk á Friðriki Theodórssyni mikið að þakka.

Frá upphafi Jazzhátíðar Reykjavíkur var hann stjórnarmaður og gjarnan það sem kalla má rödd skynseminnar í góðum selskap fleiri hugsjónamanna um þessa list augnabliksins. Það reyndist oftar en ekki farsælt að hafa Friðrik með í ráðum, uppfullan af þekkingu á því hvernig kaupin gerðust í atvinnulífinu sem hann og hans kynslóð tónlistarmanna deildu svo margir farsællega með tónlistarlífi sínu. Hann var óþreytandi að leita leiða til að koma á framfæri tónlistinni sem getur oft verið áþreifanlega fjarlæg meginstraumi daglegs lífs. Það var því dýrmætara að hafa glaðsinna lífskúnstnera til skrafs og ráðagerða sem músíkin varð skrítnari.

Hún skein skært ást Frikka á músíkinni, hvort sem það var af hljómsveitarpallinum eða úr áheyrendahópnum. Fram á síðasta dag tók hann þátt í starfi Lúðrasveitar Reykjavíkur auk þess að vera miðpunktur í starfi eldri herramanna úr röðum hljómlistarmanna sem reglulega hittast og spila big-band músík. Á jazzhátíðum átti hann það til að skjótast á svið og skatta sig í gegnum nokkra kórusa af Summertime, ef hann las salinn þannig.

Á Jazzhátíð Reykjavíkur í ágúst sl setti hann hátíðina með glæsibrag enda maður augnabliksins og hvergi eins vel fyrir kallaður og fyrir framan hljóðnema. Sem framkvæmdastjóri Jazzhátíðar til margra ára setti Friðrik viðmið sem enn eru í hávegum höfð og undir það síðasta var hann enn starfandi sem stjórnarmaður í Jazzdeild FÍH.

Það er orðnar margar kynslóðir jazzleikara sem eiga minningar um Friðrik Theodórsson, minningar sem ná yfir allan skala mannlegra tilfinninga. Hann var ákveðinn og réttsýnn, honum fannst óþarfi að laga hluti sem voru ekki bilaðir og hann vorkenndi sjálfum sér ekki að vera á skítenda skóflunnar þegar jazzinn var annarsvegar.

Á meðan við sjáum á eftir góðum félaga og vini, huggum við okkur við að félagslífið í básúnudeild big bandsins hinu megin muni taka flugið í staðinn.

Hafðu kæra þökk fyrir þitt ómetanlega óeigingjarna starf, og ekki síður fyrir öll skemmtilegheitin. Þín verður sárt saknað af fremsta bekk á komandi jazzhátíðum.

Pétur Grétarsson