Miðasalan er hafin!

Þjóðhátíð hefur verið blásin af, Fiskidagurinn mikli fór ekki fram í ár og Menningarnótt verður með breyttu sniði vegna Covid-19. Það er þó ekki ástæða til að örvænta því að 30 ára stórafmæli Jazzhátíðar Reykjavíkur nálgast og miðasalan er komin á fullt á tix.is. Þeir sem ekki vilja missa af neinu ættu að hafa hraðar hendur til að tryggja sér Jazzpassann en hann gefur aðgang að allri hátíðinni. Hátíðin fer fram yfir átta daga, frá 29. ágúst til 5. september og verða viðburðirnir um það bil 40 talsins þegar allt hefur verið talið. Dagskráin liggur að langmestu leyti fyrir en enn gætu bæst við einhverjar uppákomur sem verða auglýstar í ágúst en að öllum líkindum mun verða ókeypis inn á þær. Hátíðin í ár beinir kastljósinu að íslenskri jazz- og spunatónlist og gefst áhorfendum tækifæri til að sjá og heyra í þorra tónlistarfólks af senunni hér heima. Að venju koma erlendir gestir einnig við sögu og er þar á ferðinni tónlistarfólk í fremstu röð beggja vegna Atlantsála.