Sigmar Matthíasson – Útgáfutónleikar (IS)

Um viðburðinn

Sigmar Matthíasson – Útgáfutónleikar (IS)
Harpa, Norðurljós
Laugardagurinn 31. ágúst
21:00

Árið 2021 kom út hljómplatan Meridian Metaphor frá bassaleikaranum og tónskáldinu Sigmari Þór Matthíassyni. Á plötunni kvað við nýjan tón í lagasmíðum Sigmars en tónlistin er undir miklum áhrifum frá austrænni heimstónlist sem blandast við nútímalegan jazz á áhugaverðan hátt. Þannig má segja að áhrifa gæti bæði úr austri og vestri þar sem Sigmar bregður upp einskonar tón-myndlíkingum með fjölbreyttum skírskotunum í fólk, staði og upplifanir sem hafa mótað hann í gegnum tíðina.

Platan hlaut gríðarlega góðar viðtökur bæði hér heima og erlendis, m.a. 5 stjörnu dóm & umfjöllun í Morgunblaðinu auk þess sem ritað var um plötuna í hinu virta breska tónlistartímariti The Wire. Fyrir plötuna hlaut Sigmar og hljómsveitin samtals fjórar tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2022 og hreppti ein verðlaun – Flytjandi ársins (hópar) í flokki Jazz & Blús tónlistar.

Nú er í farvatninu ný plata, sem ber titilinn UNEVEN EQUATOR, og er einskonar rökrétt en þó sjálfstætt framhald af Meridian Metaphor, þar sem söngur og strengjahljóðfæri bætast við og stækka þannig hljóðheiminn. Platan var hljóðrituð í mars og apríl síðastliðnum og áætlað er að hún komi út í lok ágúst 2024, í tengslum við Jazzhátíð Reykjavíkur og því er um útgáfutónleika að ræða.

Hljómsveitina skipa:

Ásgeir Ásgeirsson – oud
Haukur Gröndal – klarinett
Ingi Bjarni Skúlason – píanó
Magnús Trygvason Eliassen – trommur
Sigmar Þór Matthíasson – kontrabassi og tónsmíðar

Sérstakir gestir:

Ragnheiður Gröndal, söngur

Strengjakvartettinn LÝRA
Sigrún Harðardóttir – fiðla
Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir – fiðla
Karl James Pestka – víóla
Unnur Jónsdóttir – selló