Jazzhátíð Reykjavíkur hefur verið haldin árlega allt frá árinu 1990 og er næst elsta tónlistarhátíð landsins. Hátíðin er vettvangur alls þess helsta sem gerist á sviði innlendrar jazztónlistar og er hápunktur jazzlífsins á Íslandi og árleg uppskeruhátíð innlendra jazztónlistarmanna.

Meginmarkmið Jazzhátíðar Reykjavíkur er að styðja við og kynna jazztónlist og bjóða tónlistarmönnum og jazzunnendum upp á framúrskarandi vettvang og umgjörð þar sem þeir geta flutt og notið áheyrnar þess besta sem gerist í innlendri og erlendri jazztónlist. Jafnframt leggur Jazzhátíðin innlendum jazztónlistarmönnum lið með því að koma þeim á framfæri við hátíðir í öðrum löndum í gegnum samstarfsvettvang hagsmunaaðila á evrópsku jazzsenunni, European Jazz Network, en Jazzhátíð Reykjavíkur hefur verið meðlimur samtakanna undanfarin ár.

Framkvæmdastjóri Jazzhátíðar Reykjavíkur
Pétur Oddbergur Heimisson
Stjórn Jazzhátíðar Reykjavíkur
Pétur Oddbergur Heimisson, formaður
Rebekka Blöndal, meðstjórnandi
Sigmar Þór Matthíasson, meðstjórnandi

Heimilisfang
Raudagerdi 27 – 108 Reykjavik – Iceland
Kt:610591-1409
reykjavikjazz@reykjavikjazz.is
stjorn@reykjavikjazz.is

////

Siðareglur – Jazzhátíð Reykjavíkur

Gildi

Jazzhátíð Reykjavíkur einsetur sér að veita öllu því fólki sem kemur nálægt hátíðinni, starfsfólki og þátttakendum, öruggt, afslappandi og vingjarnlegt umhverfi. Jazzhátíð Reykjavíkur biður þátttakendur, starfsfólk og annað fólk sem vinnur á hátíðinni að virða hvert annað, vera meðvituð um menningarmun og styðja við hvert annað. 

Ef einstaklingur verður uppvís um hegðun sem stríðir gegn þessum siðareglum er hvatt til þess að tilkynna það í samræmi við þá ferla sem tilgreindir eru hér fyrir neðan. Einungis með sameiginlegri þátttöku allra er hægt að tryggja öruggt umhverfi.

Umfang 

Þessar siðareglur gilda um alla þá einstaklinga sem spila eitt eða með öðrum eða vinna með einhverjum hætti á Jazzhátíð Reykjavíkur. Þessar siðareglur eiga við á viðburðum, fundum, vinnustofum, samkomum og einnig eru þær í heiðri hafðar í samskiptum á netinu.

Óæskileg hegðun

Dæmi um hegðun sem er óviðunandi og stríðir gegn siðareglunum: 

  • Mismunun eða niðrandi ummæli byggð á aldri, kyni, kynþætti, uppruna, trú, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu, stjórnmálaskoðunum, hjúskaparstöðu, fjölskylduaðstæðum, fötlun eða á öðrum þáttum.
  • Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
  • Líkamlegt og andlegt ofbeldi í hvaða formi sem er.
  • Móðgandi, ógnandi eða niðrandi hegðun, svo sem einelti, slúður, rógburður og uppnefni.
  • Annað sem einstaklingur upplifir sem óviðeigandi eða veldur óþægindum.

Tilkynningarferli og ábyrgð

Jazzhátíð Reykjavíkur tryggir öruggt og skilvirkt ferli til að tilkynna brot:

  • Einstaklingar hafa rétt til að tilkynna atvik til stjórnar, hvort sem þeir verða fyrir þeim eða verða vitni að þeim. Stjórnin mun þá beina tilkynningunni í viðeigandi farveg til fagaðila. 
  • Ef það hugnast ekki viðkomandi að tilkynna til stjórnar af einhverjum ástæðum er hægt að tilkynna til viðeigandi viðbragðsaðila, svo sem Lögreglu, Stígamóta og svo framvegis. Í neyðartilvikum skal hafa samband við neyðarsímann 112.

Alvarleg brot geta leitt til: 

  • Formlegrar áminningar, brottvísunar, eða útilokunar frá setu í stjórn, sem flytjandi eða starfsmaður á viðburðum hátíðarinnar.

Siðareglurnar eru á vefsíðu hátíðarinnar og þegar gengið er frá samningum við flytjendur og annað starfsfólk eru þær kynntar fyrir þeim.

Siðareglur þessar voru samþykktar á aðalfundi. Dagsetning: 03.02.2025