Lög Jazzhátíðar Reykjavíkur

1.gr.

Félagið heitir Jazzhátíð Reykjavíkur, kt. 610591-1409. Jazzhátíð Reykjavíkur var stofnuð 1991 í kjölfar Norrænna útvarpsjassdaga 1990 sem eru álitnir upphaf Jazzhátíðar Reykjavíkur.

2. gr.

Tilgangur félagsins er stuðla að útbreiðslu jazztónlistar og jazzmenningar í landinu, svo sem með því að halda tónlistarhátíð/ir ár hvert þar sem áhersla er lögð á flutning jazztónlistar. Um félagasamtök er að ræða og enginn atvinnurekstur verður hjá félaginu og er það óhagnaðardrifið.

3. gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með að skipuleggja tónlistarhátíð þar sem lögð er áhersla á spunatónlist og að mynda samstarf við aðrar stofnanir, t.d. tónlistarskóla, aðrar tónlistarhátíðir eða tónlistarhópa, með það að markmiði að ná til fjölbreytts hóps áheyrenda og útbreiða jazztónlist.

4. gr.

Aðild að félaginu er opin öllum sem hafa áhuga á að starfa með félaginu að markmiði þess og tilgangi og öðlast þeir þar með aðild sem félagsmenn. Stjórn félagsins hefur heimild til að veita öðrum aðilum sem tengjast málefnum félagsins aðild.

5. gr.

Reikningsár er frá 1. febrúar til 31. janúar ár hvert. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreikninga og lagt fyrir endurskoðanda eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund.

6. gr.

Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. mars ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

2. Skýrsla stjórnar lögð fram

3. Reikningar lagðir fram til samþykktar

4. Lagabreytingar

5. Kosning stjórnar

6. Kosning félagslegs endurskoðanda

7. Dagskrárdrög og fjárhagsáætlun næsta starfsárs

8. Önnur mál

7. gr.

Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga þurfa að berast stjórn skriflega, eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund. Til samþykktar lagabreytinga þarf meirihluta atkvæðisbærra fundarmanna.

8.gr.

Stjórn félagsins skal skipuð 3 félagsmönnum, formanni, gjaldkera og ritara, kjörnum á aðalfundi til tveggja ára í senn. Einnig er heimilt að kjósa allt að 2 varamenn eða meðstjórnendur. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Formaður/framkvæmdastjóri og gjaldkeri eru prófkúruhafar.

9.gr.

Stjórn Jazzhátíðar ber ábyrgð á að ráða framkvæmdastjóra sem ráðinn er til þriggja ára í senn. Ákvörðun um nýjan framkvæmdastjóra og launasetningu hans skal vera í höndum stjórnar jazzhátíðar.

10. gr.

Stjórn og framkvæmdastjóri skulu vera ábyrg fyrir að leggja fram tillögu að tónlistaratriðum hverrar Jazzhátíðar. Stjórn er heimilt að skipa listræna ráðgjafanefnd varðandi val atriða á hátíðina. Samningur skal gerður við listamenn sem fram koma á viðkomandi hátíð. Brot á siðareglum telst brot á samningi.

11. gr.

Félagsmenn borga ekki félagsgjöld. Starfsemi félagsins skal fjármögnuð með styrkfé.
Það fellur í hlut stjórnar og framkvæmdastjóra að afla þess.

12. gr.

Stjórn Jazzhátíðar leggur fram siðareglur félagsins sem gilda um alla félagsmenn Jazzhátíðar auk þeirra sem starfa við og tengjast hátíðinni. Siðareglur þessar þurfa að vera sýnilegar á heimasíðu hátíðarinnar auk þess sem þær birtast í viðauka laga félagsins.

13. gr.

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til þeirra góðgerðarmála sem ákveðin verða með afli atkvæða á slitafundi.

Lög þessi voru sett á aðalfundi.

Dagsetning: 03.02.2025