Fréttir

Hard Rock Cafe – Hist og

Fjórða kvöld Jazzhátíðar í ár fer fram á Hard Rock Cafe. Þar verður boðið upp á þrenna tónleika ásamt „jam-session“ og er passi í boði á allt kvöldið. Ekki gleyma að taka hljóðfærið með! Smelltu hér fyrir miðasölu.

Tríóið hist og var stofnað í lok árs 2017 fyrir tónlistarhátíðina „Norður Og Niður“ sem haldin var af meðlimum Sigur Rósar. Tríóið skipa Eiríkur Orri Ólafsson, sem leikur á trompet, tölvu og hljómborð, Róbert Sturla Reynisson á gítar og Magnús Tryggvason Eliassen á trommur.

Meðlimir hist og hafa starfað saman um árabil í ýmsum hljómsveitum, svo sem múm, amiinu og Sin Fang. Þeir beina nú stækkunarglerinu að sameiginlegum snertifleti sínum. Auk spunatónlistar flytur tríóið tónlist úr ranni Eiríks þar sem form og uppbygging verða til í meðförum meðlima. Tónlistin er innhverf og slagþung blanda af djass, raf-, og spunatónlist sem kemur víða við. Þó hún sé nútímaleg í vissum skilningi er melódía og formfegurð í fyrirrúmi.

Fyrsta plata tríósins kemur út haustið 2019. Platan var tekin upp í stúdíói Alberts Finnbogasonar í Iðnó og annaðist sá hinn sami upptökustjórn og hljóðblöndun.

Eiríkur Orri Ólafsson – Trompet, hljómborð og tölva
Róbert Sturla Reynisson – Gítar
Magnús Trygvason Eliassen – Trommur