Stórsveitin ásamt Kathrine Windfeld

Jazzhátíð Reykjavíkur kynnir með stolti tónleika Stórsveitar Reykjavíkur og Kathrine Windfeld í Norðurljósasal Hörpu þann 23. ágúst næstkomandi. Kvöldpassa má nálgast hér.

Hér er um að ræða afar spennandi samstarf þar sem Kathrine Windfeld, ein skærasta stjarnan í hópi ungra stórsveitartónskálda jazzheimsins, stjórnar eigin verkum með okkar frábæru stórsveit.

Stórsveit Reykjavíkur þarf vart að kynna fyrir tónlistarunnendum á Íslandi. Sveitin hefur starfað í rúmlega 30 ár og skipað mjög stóran sess í íslensku jazzlífi. Hún hefur í gegnum tíðina fengið afbragðs dóma gagnrýnenda fyrir leik sinn. Stórsveitin hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin 2005 sem jazzflytjandi ársins, 2011 fyrir jazzplötu ársins og 2023 sem jazzflytjandi ársins 2022.

Kathrine Windfeld lék á Jazzhátíð Reykjavíkur fyrir tveimur árum, þá með sextett sínum. Þar fengu áhorfendur að heyra tónsmíðar hennar og útsetningar í smærri hljómsveit og var þeim tónleikum afar vel tekið. Nú er komið að því að fá að heyra verk þessarar rísandi stjörnu í hinum evrópska jazzheimi í stærra samhengi.

Breska blaðið The Guardian lýsir tónsmíðum Kathrine Windfeld sem sjaldgæfri blöndu af lágstemningu og styrk og talar um marglitað samsuð af fáguðum hljómaköflum, drífandi grúvi og ljóðrænum ballöðum sem fljóta inni í kraftmiklum útsetningum.