Ari Bragi spilar á Jazzhátíð í ár

Ari Bragi Kárason er einn af okkar fremstu trompetleikurum í dag og býr nú og starfar í Kaupmannahöfn. Þar hefur hann m.a. verið að spila með Danish Radio Big Band (DRB) ásamt því að spila í ýmsum verkefnum t.d. með Mezzoforte og fleirum. Hann var hér á landi fyrir stuttu síðan að stýra Stórsveit Reykjavíkur á tónleikum með GDRN, Friðriki Dór og Moses Hightower.

Nú snýr hann aftur heim og tekur með sér félaga sína í hinum nýstofnaða The Nordic Quintet sem spilar á tónleikum í Norðurljósasal Hörpu laugardaginn 26. ágúst. Kvöldpassa má nálgast hér. Uppruna kvintettsins má rekja til miðju dönsku jazzsenunnar. Hver og einn meðlimur hefur verið áberandi alþjóðlega og hafa þeir nú tekið höndum saman og hljóðritað tvær hljómplötur sem koma út fyrr en síðar. Áhrifin eru blönduð af hardbop og modern-jazz með tilfiningamiklum tilþrifum frá hrynsveit hljómsveitarinnar. Frumsamin tónlist í bland við uppáhalds lög meðlima eru á efnisskrá.

Kraftmiklir straumar koma frá bandinu og er það mikill heiður fyrir Ara Braga Kárason, og Jazzhátíð Reykjavíkur, að kynna þessa afburðarspilara fyrir íslenskum jazzunnendum.