Því miður vantaði nokkur atriði inn á síðu TIX í gær sem eru alveg ómissandi (eins og allt á Jazzhátíð) en það er búið að kippa því í liðinn. Flest atriðanna sem vantaði eru á opnunarkvöldi hátíðarinnar miðvikudaginn 5. september. Að sjálfsögðu verður skrúðgangan á sínum stað og við segjum nánar frá henni þegar nær dregur. Um kvöldið eru alls fernir útgáfutónleikar á tvennum stöðum, í Hannesarholti og Tjarnarbíó sem hefjast kl 19:30 og 21:30
Í Hannesarholti fagnar píanistinn Agnar Már Magnússon nýrri útgáfu, Hending, með gítarleikaranum Lage Lund. Lund er norskur en hefur verið í framvarðarsveit New York jazzsenunnar um árabil. Þeir félagar leika tvö sett og selt er inn á hvort settið fyrir sig, þ.e. kl 19:30 og svo kl 21:30. Sjá nánar á síðu Jazzhátíðar
Í Tjarnarbíói verða tvennir útgáfutónleikar og ríður píanistinn Ingi Bjarni Skúlason á vaðið með sínu tríó. Ingi Bjarni er ekki bara að fagna nýrri útgáfu heldur útgáfusamning við Dot Time Records sem gerir út frá New York. Við óskum Inga Bjarna hjartanlega til hamingju með þennan merka áfanga. Með honum leikaBárður Reinert Poulsen frá Færeyjum á kontrabassa og Magnús Trygvason Eliassen á trommur. Sjá nánar á síðu Jazzhátíðar
Seinna útgáfutónleikarnir í Tjarnarbíói eru með kvartett trommuleikarans Scott McLemore. Með honum leika Frakkarnir Pierre Perchaud á gítar og Nicolas Moreaux á kontrabassa og Hilmar Jensson leikur einnig á gítar. Fjórmenningarnir vefa í kringum hvern annan á lýrískan og þokkafullan máta sem lokkar hlustandann inn í litríkt ferðalag. Sjá nánar á síðu Jazzhátíðar
Smellið á YouTube slóðirnar hér fyrir neðan til að heyra tóndæmi.
Við minnum svo á afsláttarpakka á 4, 6 eða 8 tónleika fyrir þá/þær sem ætla að vera dugleg(ir) að mæta. Miðasala er á Tix.is og dagskrána má skoða á reykjavikjazz.is