Sölvi & Magnús + Hilmar Jensson

Um viðburðinn

Gestir Jazzhátíðar Reykjavíkur eiga von á góðu því á þessum tónleikum fá þeir félagar Sölvi Kolbeinsson og Magnús Trygvason Eliassen góðan liðsstyrk er hinn rammgöldrótti gítaristi Hilmar Jensson stígur á stokk með þeim og úr verður tríó sem enginn ætti að missa af.

Saxófónleikarinn Sölvi Kolbeinsson og trommuleikarinn Magnús Trygvason Eliassen kynntust á íslensku tónlistarsenunni og hafa unnið mikið saman með ólíkum hópum síðustu ár. Þeir byrjuðu að spila saman sem dúó árið 2015 og hafa síðan þá haldið fjölda tónleika á tónleikastaðnum Mengi auk þess að koma fram á skemmtistaðnum Húrra og Bryggjan Brugghús. Á þessum tíma hafa Sölvi og Magnús farið í gegnum ótalmarga djass standarda og önnur lög sem þeim finnst skemmtileg, eftir höfunda eins og Thelonious Monk, John Coltrane, Paul Motian, Bud Powell og Antônio Carlos Jobim. Þeir fara gjarnan frjálst með lögin, spinna inn og út úr þeim en leggja alltaf áherslu á að týna þeim ekki.

Það þarf varla að kynna Hilmar Jensson fyrir íslensku áhugafólki um jazztónlist. Hann hefur í áraraðir verið einn fremsti gítarleikari landsins í jazz- og spunatónlist og hefur verið í framvarðasveit þeirra tónlistarlistamanna sem fást við ýmis konar tilraunir í hljóðheimum.

FLYTJENDUR:

Sölvi Kolbeinsson: saxófónn
Magnús Trygvason Eliassen: trommur
Hilmar Jensson: gítar

 

 

 

Tengdir listamenn

Sjá alla viðburði