Bjarni Már Ingólfsson & Tumi Torfason

Um viðburðinn

Vinirnir og kollegarnir Bjarni Már Ingólfsson gítarleikari og Tumi Torfason trompetleikari leika frumsamda efnisskrá af tónlist og flétta henni saman við frjálsan spuna. Í dúóforminu hafa þeir fundið rými fyrir einbeitt samtal, heita rökræðu og hjartanlegt samkomulag. Þeir fara mjúkum höndum um tónsmíðar sínar, snúa þeim á alla kanta og leika af fingrum fram í formfestu og frjálsu falli. Þannig flæða þeir milli strúktúrs og óvissu í tónlistinni.

Tvíeykið hefur leikið saman í ýmsum verkefnum sem þeir taka þátt í eða leiða sjálfir en sem dúó unnu þeir í Skapandi sumarstörfum Reykjavíkur og héldu tónleikaseríu í miðbænum síðastliðið sumar. Þeir kynntust í Konunglega tónlistarháskólanum í Stokkhólmi þar sem þeir nema báðir djasstónlist og spuna. Saman hafa þeir komið fram á tónleikum og upptökum bæði þar úti og hér heima.

Þeir Bjarni og Tumi eru tveir af efnilegustu djasshljóðfæraleikurum og tónskáldum sinnar kynslóðar og verður spennandi að fylgjast með þeim á næstu misserum. Þetta sumar vinna þeir báðir skapandi sumarstörf, spila hina ýmsu tónleika og taka upp nýja tónlist áður en þeir fljúga aftur út til Svíþjóðar í haust og halda náminu áfram. Á djasshátíð í ár kemur Bjarni Már einnig fram með tríói sínu „Bjarni Már tríó” og Tumi með lúðrakvartettnum „Tu Ha? Tu Bjö!”.

Bjarni Már Ingólfsson : gítar
Tumi Torfason : trompet

Sjá alla viðburði