Bíótónleikar – The General

Um viðburðinn

Meistaraverk Buster Keaton, gamanmyndin The General frá árinu 1926, verður sýnd í einstökum búningi þann 2. september klukkan 21:15. Hér gefst einstakt tækifæri til að upplifa kvikmyndasýningu líkt og fólk gerði á þriðja áratug síðustu aldar þar sem Kristján Hrannar Pálsson leikur hljóðspor á B3-hammond Óháða safnaðarins og glæðir þannig myndina lifandi tónum.

Kristján Hrannar hefur skapað sér nafn sem fjölhæfur tónlistarmaður, en hann hefur komið við í rafpoppi, house-tónlist, jazz og klassískri tónlist. Fyrr á þessu ári sendi hann frá sér nútímaorgelverk um hamfarahlýnun og fylgir verkinu eftir hringinn í kringum landið sumarið 2020. Hann er tónlistarstjóri Óháða safnaðarins og leysir að auki af sem organisti Laugarneskirkju á komandi vetri. Hann er stjórnandi Óháða kórsins sem er óhefðbundinn poppkór og hefur meðal annars komið fram á Íslensku tónlistarverðlaununum og á útgáfutónleikum Hatara.

Sjá alla viðburði