Anna Gréta Tríó (IS/SE)

Um viðburðinn

Anna Gréta Sigurðardóttir hefur verið búsett í Stokkhólmi síðan 2014 og hefur á þeim tíma komið víða við. Nýverið hlaut hún þann heiður að fá boð um að koma fram á Nóbelsverðlaunathöfninni 2020 og í mars 2021 bauðst henni að halda eigin tónleika í hinu víðfræga Stockholm Concert Hall. Fyrsta sóló plata Önnu Grétu er væntanleg í janúar 2022 en á henni syngur hún og spilar eigið efni, en þar má einnig heyra í rjómanum af íslensku jazztónlistarfólki undir dyggri upptökustjórn Alberts Finnbogasonar.

Hún hefur á síðustu árum raðað að sér verðlaunum og tilnefningum, m.a. hin virtu Monica Zetterlund verðlaun en þau hlýtur árlega einn ungur og efnilegur jazztónlistarmaður í Svíþjóð. Þar að auki var hún tilnefnd til verðlaunanna Jazzkatten af sænska ríkisútvarpinu, og tilnefnd í tveimur flokkum til íslensku tónlistarverðlaunanna 2019. Anna Gréta var valin bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaunum árið 2015 og hlaut viðurkenningu frá góðvinafélagi stærsta jazzklúbbs Svíþjóðar, Fasching í Stokkhólmi árið 2018. Anna Gréta hefur verið virk sem tónskáld og var meðal annars valin til þess að semja verk fyrir stjörnupíanóleikarann Bobo Stenson og Norrbotten big band haustið 2019.

Á Jazzhátíð Reykjavíkur kemur Anna Gréta fram með tríói sem auk hennar skipa þeir Johan Tengholm á kontrabassa og Einar Scheving á trommur. Sérstakur gestur á tónleikunum verður kynntur síðar.

Anna Gréta (IS) : píanó / söngur
Johan Tengholm (SE) : kontrabassi
Einar Scheving (IS) : trommur

 

Sjá alla viðburði