Tónleikastaðir á Jazzhátíð 2020

Það er okkur einskær ánægja að tilkynna að Tjarnarbíó verður einn af tónleikastöðum Jazzhátíðar Reykjavíkur á 30 ára stórafmælinu 2020. Hátíðin í fyrra fór þar fram að hluta til og tókst svo vel til að við bara urðum að vera þar aftur í ár.

Kornhlaðan er frábær staður í miðborginni sem verður einn af tónleikastöðunum á Jazzhátíð Reykjavíkur 2020. Við erum gríðarlega spennt að bjóða upp á nokkra tónleika á þessum magnaða stað.

Það er einnig gaman að segja frá því að Tjarnarsalur Ráðhúss Reykjavíkur verður einn af tónleikastöðum á 30 ára stórafmæli Jazzhátíðar Reykjavíkur í ár. Í fyrra fóru þar fram nokkrir frábærir tónleikar sem opnir voru almenningi og alveg ókeypis. Við hlökkum til að bjóða upp á ókeypis tónleika í Ráðhúsinu alla virka daga milli 31. ágúst og 4. September 2020.

Eftir tveggja ára fjarveru er það okkur mikil ánægja að kynna næsta tónleikastað en hann er í uppáhaldi á meðal áhorfenda Jazzhátíðar Reykjavíkur. Við erum að sjálfsögðu að tala um Hörpu. Í gegnum árin höfum við haldið marga frábæra tónleika í þessu magnaða tónlistarhúsi okkar Íslendinga og gestir Jazzhátíðar eru venjulega í skýjunum yfir tónleikum okkar þar.

Nokkrir tónleikastaðir í borginni sem hafa reglulega boðið upp á ilfandi jazztónlist slást í för með Jazzhátíð Reykjavíkur á 30 ára stórafmælinu 29. ágúst – 5. September 2020. Á meðal þessara staða má nefna Jómfrúna í Lækjargötu, Kex Hostel á Skúlagötu og síðast en ekki síst Múlann Jazzklúbb sem hefur aðsetur á Björtuloftum í Hörpu.

Svo er aldrei að vita nema að fleiri tónleikastaðir bætist við þannig að best er að fylgjast vel með og tengjast okkur á facebook og instagram.