Björg Blöndal’s C4THERINE

Björg Blöndal’s C4THERINE kemur fram í fyrsta sinn á Íslandi með ferska og framsækna tónlist sem lætur engan ósnortinn. Kvartettinn var stofnaður í Osló vorið 2024.

Hann skipa:

Björg Blöndal (IS) söngkona,
Þorkell Ragnar (IS) gítarleikari,
Viktoria Søndergaard (DK) víbrafónleikari
Patrycja Wybrańczyk (PL) trommari.

Þau spila frumsamda tónlist Bjargar, þar sem nútímajazzi og phscyhedelic rokki er fléttað saman í djarfan og dýnamískan hljóðheim. Litríkar laglínur, súrrealísk soundscape og kraftmikil riff kallast á og hikar kvartettinn ekki við að ögra norminu. Hljómsveitin tók nýverið upp sína fyrstu plötu, Wild Blue Yonder, sem stefnt er á að gefa út síðla árs 2025. Wild Blue Yonder er “konsept-plata”, einskonar uppgjör á móðurmissi, þar sem rauði þráðurinn er sorgin í sínum mörgu myndum. Platan sameinar ólíkar tónsmíðar á kraftmikinn hátt, þar sem spilagleði og einlægni ráða för. Tilfinningum er gefinn laus taumurinn og þær tjáðar og túlkaðar á hráan en ljóðrænan hátt, með eða án texta. Á Reykjavík Jazz Festival 2025 mun C4THERINE flytja efni af áðurnefndri plötu í bland við nýlegri tónsmíðar eftir Björgu.