Fréttir

Hard Rock Cafe – Zetterberg/Silva/Scheving/Pálsson

Fjórða kvöld Jazzhátíðar í ár fer fram á Hard Rock Cafe. Þar verður boðið upp á þrenna tónleika ásamt „jam-session“ og er passi í boði á allt kvöldið. Ekki gleyma að taka hljóðfærið með! Smelltu hér fyrir miðasölu.

Þessi spennandi viðburður leiðir saman fjóra listamenn sem allir eru hluti af hinni módernísku og framsæknu kynslóð jazztónlistarmanna en þó hver á sinn hátt. Útkoman er samstarfsverkefni sem enginn ætti að missa af. Kvartettinn skipa hin portúgalska Susana Santos Silva á trompet, sænski bassaleikarinn Torbjörn Zetterberg og heimamennirnir Jóel Pálsson á tenór saxófón og Einar Scheving á trommur. Leikin verða verk eftir meðlimi kvartettsins.

Um tónlistarfólkið:

SUSANA SANTOS SILVA er trompetleikari, spunakona og tónskáld fá Porto í Portúgal. Á undanförnum árum hefur hún fengið mikið lof og hafa gagnrýnendur litið á hana sem eina af sterkari röddum sem eru að ryðja sér til rúms í heimi nútíma jazz- og spunatónlistar.

Nálgun hennar og rödd á sér margþættan bakgrunn, allt frá klassískri og samtímatónlist yfir í jazz og framsæknari hljóðlist, sem hún svo notar til að og kanna nýjar leiðir til tjáningar í gegnum tónlist. Susana leiðir verkefnin Impermanence og Life and Other Transient Storms (með Lottu Anker, Sten Sandell, Jon Fält og Torbjörn Zetterberg). Hún spilar einnig í Nu Ensemble sem leitt er af Mats Gustafsson, Fire! Orchestra, LAMA, Carliot Orchestra Per-Åke Holmlanders og mörgum fleiri hljómsveitum og verkefnum.

‘One of the most exciting improvisers in the world’ (Downbeat Magazine)

TORBJÖRN ZETTERBERG vakti ungur athygli er hann nam við konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi. Þar lærði hann kontrabassaleik undir handleiðslu Jan Adefelt og var fljótlega farinn að spila í hljómsveit Fredrik Noréns ásamt saxófónleikaranum Jonas Kulhammar. Torbjörn hafði strax mikil áhrif á sænsku jazzsenuna og hefur orðspor hans vaxið verulega en í dag er hann álitinn vera eitt best geymda leyndarmál í heimi kontrabassans. Hann er klárlega í farabroddi á hinni eldheitu jazzsenu í Stokkhólmi en þar er auðvelt að þekkja hann á kraftmiklum stíl hans.

JÓEL PÁLSSON hefur verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi á undanförnum árum og tekið þátt í fjölmörgum verkefnum á ólíkum sviðum tónlistar. Hann hefur leikið á fjölda hljómplatna og komið fram í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada og Kína á tónleikum og tónlistarhátíðum. Jóel hefur gefið út plöturnar Prím, Klif, Septett, Varp, Horn, Innri og Dagar koma með frumsaminni tónlist auk platna sem hann hefur unnið í samstarfi við aðra; Stikur (m.Sigurði Flosasyni) og Skuggsjá (m.Eyþóri Gunnarssyni).

Jóel hefur hlotið íslensku tónlistarverðlaunin sjö sinnum og verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs tvisvar, árin 2011 og 2016.

EINAR SCHEVING hefur verið eftirsóttur trommu- og slagverksleikari í djass-, popp- og klassískri tónlist frá unglingsaldri og hefur hann leikið inn á vel yfir 100 geisladiska. Einar útskrifaðist frá Tónlistarskóla FÍH, stundaði framhaldsnám við University of Miami og lauk þaðan MA-prófi árið 2002.

Einar hefur lagt aukna áherslu á tónsmíðar í seinni tíð, og hefur hann þrisvar hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin, m.a. fyrir plöturnar Cycles (2007) og Land míns föður (2011). Báðar þessar plötur hlutu mikið lof gagnrýnenda jafnt hérlendis sem erlendis. Nýjasta plata Einars, Intervals, kom út í október 2015 og hefur þegar vakið mikla athygli, auk þess að hljóta tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2015.