Fréttir

Hard Rock Cafe – María Magnúsdóttir syngur Anita O’Day

Á fimmta og jafnframt síðasta degi Jazzhátíðar í ár verða lokatónleikar á Hard Rock Cafe kl. 15:00. Smelltu hér til að kaupa miða.

Stórsöngkonan og jazz dívan Anita O’Day á 100 ára fæðingarafmæli í ár, en hún fæddist þann 18. október árið 1919. Af því góða tilefni mun kvartett Maríu Magnúsdóttur heiðra söngkonuna ástsælu með tónleikum á Jazzhátíð Reykjavíkur 2019. Leikin verða vel valin lög sem Anita gerði ódauðleg á sínum langa ferli, flest hver úr hinni góðkunnu Great American Songbook. Fyrsta plata Anitu kom út árið 1951, hún varð heimsþekkt fyrir sérstæðan söngstíl þar sem hörku sveifla, hrynur og spuni léku stærstan part.

Hljómsveitina skipa söngkonan María Magnúsdóttir, Karl Olgeirsson á píanó, Sigmar Þór Matthíasson á kontrabassa og Matthías Hemstock á trommur. María hefur verið virk á jazz senunni í nokkur ár en hún lærði jazz söng til bakkalár í Konunglega tónlistarháskólanum í Haag, Hollandi. María Magnúsdóttir kemur reglulega fram bæði sem jazzsöngkona en einnig með sóló verkefnið sitt MIMRA. Píanistinn Karl Olgeirsson hefur getið sér gott orð með útgáfu plötunnar Mitt bláa hjarta sem kom sá og sigraði á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár. Sigmar Þór Matthíasson bassaleikari sendi frá sér sína fyrstu sólóplötu, Áróru, í fyrra. Trymbillinn Matthías Hemstock þarf vart að kynna fyrir fólki en hann hefur verið einn af helstu jazztrommuleikurum landsins síðasta áratuginn.

María Magnúsdóttir – söngur
Karl Olgeirsson – píanó
Sigmar Þór Matthíasson – kontrabassi
Matthías Hemstock – trommur