Jazzhátíð Reykjavíkur (Reykjavík Jazz) fer fram dagana 13. til 19. ágúst 2022. Boðið verður upp á glæsilega sjö daga tónleikadagskrá þar sem jazz, blús, fusion og spunatónlist verður í forgrunni og frábært listafólk frá Bandaríkjunum, Evrópu og Íslandi kemur fram. Í meira en 30 ár hefur þessi árlegi viðburður verið uppskeruhátíð íslenskra jazztónlistarmanna sem og vettvangur til þess að kynna það besta sem er að gerast á sviði jazztónlistar á alþjóðlegum vettvangi.
Tónleikar og viðburðir á Jazzhátíð 2022 verða hátt í 40 talsins og alls munu tæplega 200 listamenn koma fram. Dagskráin, sem verður kynnt fljótlega, er gríðarlega fjölbreytt og má segja að flestar stefnur og stílar sem finnast undir breiðum hatti jazztónlistar verði á boðstólum. Þar á meðal er erlent tónlistarfólk í fremstu röð, nokkrir útgáfutónleikar íslenskra jazztónlistarmanna, samstarfsverkefni íslenskra og erlendra listamanna og ótal aðrir tónleikar.
Hátíðin í ár fer að mestu fram í Hörpu en auk þess verða tónleikar í Fríkirkjunni, Ráðhúsi Reykjavíkur, á Jörgensen Kitchen & Bar við Hlemm, á Skuggabaldri við Austuvöll, á Jómfrúnni við Lækjargötu og í Hallgrímskirkju.