Jazzhátíð Reykjavíkur fagnar 30 ára afmæli í ár með glæsilegri tónleikadagskrá dagana 29. ágúst til 5. september. Segja má að Jazzhátíð hafi orðið til með Norrænum útvarpsjazzdögum í maí árið 1990 en ári síðar var fyrsta RúRek hátíðin haldin með samstarfi FÍH, RÚV og Reykjavíkurborgar. Frá upphafi hefur þessi árlegi viðburður verið bæði í senn, uppskeruhátíð íslenskra jazztónlistarmanna sem og vettvangur til þess að kynna það besta sem er að gerast á sviði jazztónlistar á alþjóðlegum vettvangi.
Í tilefni af stórafmæli hátíðarinnar var stefnt að því að gera íslenskri jazztónlist sérstaklega hátt undir höfði. Markmiðið var að beina kastljósinu í miklum mæli að innlendum flytjendum en auk þess að bjóða uppá heimsþekkta erlenda listamenn. Í ljósi raskana á flugsamgöngum vegna Covid-19 faraldurs hefur hátíðin þurft að hætta við eða aflýsa tónleikum með flytjendum frá bæði Bandaríkjunum og Evrópu en eftir stendur glæsileg dagskrá með innlendu tónlistarfólki að langmestu leyti. Það er vert að taka fram að við framkvæmd tónleika verður fyrirmælum sóttvarnaryfirvalda um fjöldatakmarkanir fylgt í hvívetna og fjarlægðamörk milli gesta verða tryggð.
Tónleikar og viðburðir á Jazzhátíð 2020 verða yfir 30 talsins og alls munu u.þ.b. 100 listamenn koma fram, þar af þó nokkrir oftar en einu sinni. Á dagskránni eru þrennir útgáfutónleikar. Tómas R. Einarsson ríður á vaðið á opnunardeginum 29. ágúst og Hafdís Bjarnadóttir og Parallax fylgja sinni plötu úr hlaði daginn eftir. Á lokakvöldi hátíðarinnar 5. september heldur svo Agnar Már Magnússon tónleika í tilefni af útkomu plötunnar “Mór”.
Helstu styrktaraðilar eru Reykjavíkurborg, Tónlistarsjóður og FÍH.