Jazzhátíð Reykjavíkur verður með breyttu sniði í ár. Hátíðin kveður Hörpu og jazzinn mun duna á nokkrum skemmtilegum stöðum í borginni 5-9 september. Ólíkt síðstu árum verður enginn passi í boði en þess í stað verður hægt að kaupa miða á staka tónleika og í boði eru afsláttarpakkar á 4, 6 eða 8 tónleika. Það er deginum ljósara að uppselt verður á einhverja viðburði þegar aðeins eru í boði t.d. 70 eða 180 miðar svo að við vildum gefa þér séns á að tryggja þér miða áður en við tilkynninum þetta opinberlega.
Það stendur til að senda út nokkra pósta á næstunni til að kynna dagskrána sem best en byrjum á að kynna til leiks gítarleikarann Ralph Towner frá Bandaríkjunum. Towner mun leika einleik á klassískan gítar í Tjarnarbíó föstudaginn 7. september kl 21:30. Hvort sem hann leikur lög úr jazz biblíunni eða sínar eigin tónsmíðar nær hann á einstakan máta að sýna hinar fjölmörgu liti og töfra sem nylon strengja gítarinn býr yfir og hver nóta syngur af innlifun og dýpt.
Fyrr um kvöldið, eða kl 19:30 verður hljómsveit Sigmars Þórs Matthíassonar, Áróra, með útgáfutónleika í Tjarnarbíói og í Iðnó verða tvennir tónleikar, fyrst útgáfutónleikar tríósins NOR undir stjórn bassaleikarans Richard Andersson og svo sextett sellóleikarans Þórdísar Gerðar Jónsdóttur.
Miðasala er á Tix.is og dagskrána má skoða á reykjavikjazz.is